20.2.07

Góðan dag,
Bréf þetta barst vefsíðunni frá Black Rock eyðimörkinni í Nevada, BNA:

"Sælir lesendur,
Ég geri mér grein fyrir því hversu óbærileg fjarvera mín á þessum vef hlýtur að hafa verið ykkur öllum. Ég þakka öllum þeim sem sendu bréf og gjafir á heimili mitt og fyrrverandi eiginmanns míns, og hugsa ég með harmi til þess að hafa ekki getað verið ykkur meira innan handar, endurgoldið ykkur þessa hlýju og vinsemd sem þið hafið sýnt mér, og að hafa ekki getað svarað öllum þeim fjölda tölvupósta sem hlaðist hefur upp í pósthólfinu mínu. Ég bið ykkur einfaldlega að hafa skilning fyrir því að yfirstaðið tímabil í lífi mínu var erfitt og ófyrirsjáanlegt og má ég þakka fyrir að vera enn á lífi. Ég mun rekja sögu mína fyrir ykkur, í smáatriðum, í góðu tómi, og ef ég get á einhvern hátt bætt ykkur upp þennan glataða tíma og veitt ykkur innblástur og von, þá er það með sögunni af lífshremmingum mínum síðustu þrjú árin.

Your's truly,
Dr.Curly"

Dr. Curly McLaughlin er semsagt vöknuð til lífsins á ný og tilbúin að líta um öxl með sjónauka og bros á vör. Marcel Michelin er ekki lengur hluti af hennar lífi, og biður hún því lesendur að minnast ekki á hann, að skrifa honum ekki bréf og gleyma öllu því sem hún sagði um eldheita, ósigrandi og eilífa ást, því það er allt saman kjaftæði.

Ulrika Schmidt, umboðsmaður dr. Curly McLaughlin á Íslandi.