29.3.07

Hér sit ég og skrifa á fartölvuna mína í bakgarðinum hjá Tim og Lucy McDermott, í Salt Lake City. Tim er málfræðingur og brandarakarl mikill, uppáhaldsfónemin hans eru retróflex "d" og "t" eins og í indversku og uppáhalds fallið hans er þágufall. Í dag kenndi hann mér setningu sem notar alla stafi enska stafrófsins: "the quick brown fox jumps over the lazy dog". Lucy er með legsig eftir alltof mörg maraþonhlaup um ævina, en er samt mjög hress. Þau kynntust á Íslandi þegar Tim var mormónskur trúboði og hún skiptinemi í Verzló. Kvöld eitt bankaði Tim uppá hjá fjölskyldu Lucy til að boða trú og syngja mormónalög, Lucy hreifst af gljáandi barmmerki Tims og þau felldu samstundis hugi saman. Öldungur Mountainberry og öldungur Daisywhite kærðu atvikið til kirkjunnar og var Tim rekinn úr trúboðinu. Syndgararnir flúðu þá land og komu sér fyrir í trailer park í Delaware-fylki, þar sem ég kynntist þeim einmitt. Nakin og frjáls gekk ég heim af ströndinni í Indian River Bay, þegar ég heyrði íslensku mælta með þykkum amerískum hreim: "Ekki vil eg," sagði Grímur, "gerast lendur maður, meðan faðir minn lifir, því að hann skal vera yfirmaður minn, meðan hann lifir" - þóttist ég þarna þekkja brot úr Egils Sögu. Ég kynnti mig fyrir hjónunum og sagðist einnig hafa dvalið á Íslandi. Þau útskýrðu fyrir mér að þau læsu alltaf einn kafla úr Egils sögu fyrir kvöldmat - til að halda íslenskunni við. "Tim er algjör lestrarhestur" sagði Lucy. "Laukrétt" sagði Tim.

Hér eru þau hjónin, alltaf jafn hress.

En hvers vegna er ég að segja ykkur frá þessu, þegar ég á að vera að rekja ferðasögu mína síðustu árin? Marsmánuður 2003 markar nefnilega upphaf rauna minna og vandamála og er frá litlu að segja. Marcel var kærður fyrir fölsun á nokkrum leikverka Strindbergs og gert að mæta fyrir rétt í Uppsölum. Bandaríkjaher réðst inn í Írak, sprengjur sprungu í Filippseyjum, Nikkei-hlutabréfin mín kolféllu og neonlituð föt komust í tísku. Ég lokaði mig inni í bústaðnum mínum, las Baudelaire og hlustaði á Jeff Buckley þangað til sumraði. Ég vissi að ég væri búin að vanvirða samning minn við djöfulinn, því á Íslandi var enn fólk sem þurfti á aðstoð minni að halda, til að mynda nokkrir vitleysingar sem ekki vissu að það ætti að varðveita gömul og falleg hús en ekki rífa þau niður og byggja nýtískulegar legóblokkir í staðinn. Hefði ég haft meiri sálarró og festu í lífinu hefði ég reynt að koma vitinu fyrir þá. En, ég frýjaði mig allri ábyrgð og flúði á vit ástmannsins, sem kominn var til Lapplands í hugleiðingarbúðir.

Það sumarið hitnaði ærlega í kolunum, svo mikið að öll gamalmenni Evrópu brunnu inni á meðan ungviðið beraði bossann í almenningsgosbrunnum. Var þetta úlfurinn að taka reiði sína út á mér??