25.4.07

Raunir úr verslanamiðstöð

Einu sinni kynntist ég manni sem sagðist hafa "riðið sig út úr Smáralindinni" (Ulrika, ég afsaka orðbragðið). Hann var alinn upp í Garðabænum, efst á Nónhæðinni, þar sem útsýni er yfir Kópavoginn. Sem barn skammaðist hann sín alltaf fyrir að búa í bleikri blokk, málaði herbergið sitt svart og safnaði Svarthöfðasafngripum og Guns 'N Roses plakötum. Rökréttast var, þegar hann komst að því að bókvit hans væri ekki mikið, né líkamlegt verkvitið nokkuð að ráði, að hann fengi sér vinnu í verslun, þar sem hann gæti t.d. brotið saman skyrtur með þartilgerðu spjaldi, spilað 'bubbles' þegar lítið væri að gera, og sagt með fölsku öryggi hluti á borð við "ég skal athuga inni á lager" (í búð þar sem enginn lager væri). Hann var maður í svona afslappað bullstarf þar sem hann þyrfti ekki að kunna, hugsa né læra neitt.

Hann fékk semsagt vinnu í verslun nokkurri í Smáralindinni stuttu eftir ákvörðunina, gat keyrt Honduna sína niður götuna og lagt henni á bílastæðinu - að vera hluti af stórri heild átti vel við hann. Fjöldaframleitt skyrtusniðið og daufir litirnir samræmdust líka yndislega vel jafnaðargeði hans. Í skyrtunni var hann einn af þessum mönnum sem fólki finnst gott að vera með í lyftu, sem það veit að ekki er vond lykt af, og sem það grunar að muni aldrei gera neitt [af sér] í lífinu. Hann elskaði starf sitt, og elskaði Smáralindina. Og allir elskuðu hann. Í kaffitímanum daðraði hann við stelpurnar í upplýsingaborðinu, keyrði þær um í barnakerrunum, og þegar einstaklega vel lá á honum gekk hann öfugum megin upp rúllustigana til að skemmta stelpunum. Það fór svo að hann svaf hjá einni þeirra í kaffitímanum, eða eins og hann sagði þá fengu þau sér fyrst 'whopper' og svo 'whoppaði hann hana. Eftir það tók hann Vero Moda pæjurnar, Zöru stelpurnar, hvítklæddu konuna í Cosmó, unglingsstelpuna á kassanum í Hagkaup, hnellnu konuna með skökku tennurnar í Tiger, og í raun allar konur og stúlkur sem unnu í Smáralindinni, nema stelpuna í Eymundsson, því hún var að sofa hjá Steinari Braga rithöfundi.

Ekki leið á löngu þar til komst upp um hann. Konur tala sín á milli, og var engin undantekning á því í þessu tilfelli.

Ég hitti manninn (sem ég vil ekki nefna með nafni) fyrir utan Smáralindina á sunnudegi þar sem hann grét ofan í indverska flöskubjórinn sinn með skrúftappanum - "Hann fæst bara í þessu Ríki"..... Hann sagðist sakna Smáralindarinnar óskaplega, þá sérstaklega TopShop og Zara Men, vegna þess að þær búðir eru hvergi annars staðar. Hann gæti nú yfirleitt fundið hinar búðirnar í Kringlunni eða á Laugaveginum. "Hefði ég vitað að allt þetta kynlíf, sem mér þótti á sínum tíma skemmtilegt, myndi kosta mig vinnuna og æruna, þá hefði ég aldrei gert þetta. Ég gat bara ekki gert að því hvað ég leit vel út í skyrtu, með strípur og barmmerki."


Jói Fel saknar hans samt.

Já, ég mátti til með að deila raunasögu þessa manns með ykkur, Annars bið ég að heilsa ykkur, frá San Francisco, ég leigi íbúð í Japan Town með tveimur Nýsjálendingum sem kynna sig alltaf sem Kiwi Kate og Kiwi Kyle. Ég er í erindagjörðum sem ykkur verða því miður ekki kunngerðar að svo stöddu.

Your's truly,
Doctor Curly